Erlent

FIDE bannar trans konum þátt­töku og sviptir trans menn titlunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kynjaskipting í skák... vit eða vitleysa?
Kynjaskipting í skák... vit eða vitleysa? Getty/Anadolu Agency/Omer Taha Cetin

Alþjóðaskáksambandið (FIDE) hefur ákveðið að banna trans konum að taka þátt í mótum fyrir konur, að minnsta kosti tímabundið.

Í yfirlýsingu segir að sambandið muni taka sér allt að tveggja ára umþóttunartíma til að meta þær breytingar sem séu að verða á bæði löggjöf ríkja og reglum íþróttasambanda hvað varðar þátttöku trans kvenna í íþróttum.

„FIDE mun fylgjast með þessari þróun og kanna hvernig aðlaga má hana að skákheiminum. Tvö ár eru viðmið sem við teljum ásættanlegt fyrir gagngera greiningu á umræddri þróun,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er tekið fram að trans einstaklingar geti áfram keppt í opnum flokkum en sambandið hefur jafnframt ákveðið að trans menn sem unnu titla áður en þeir gengust undir kynleiðréttingu muni missa titlana.

Ákvarðanir FIDE hafa verið harðlega gagnrýndar en Yosha Iglesias, trans kona og atvinnumanneskja í skák, segir þær munu leiða til óþarfa skaða fyrir trans einstaklinga og konur. „Þetta hörmulega ástand mun leiða til þunglyndis og sjálfsvígstilrauna,“ segir hún.

Þá segir stórmeistarinn Jennifer Shahade að ákvörðunin sé „fáránleg og hættuleg“.

„Það er augljóst að þeir ráðfærðu sig ekki við neinn trans skákmann við útfærsluna,“ segir hún.

„Það er ekkert líkamlegt forskot í skák, nema þú trúir því menn séu betri skákmenn en konur,“ segir breska skákkonan og þingmaðurinn Angela Eagle. „Allan skákferil minn var mér sagt að heilar kvenna væru minni en heilar karla og að við ættum ekki að vera að taka þátt yfir höfuð. Bannið er fáránlegt og móðgun við konur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×