Formúla 1

Cras­hgate skandallinn vindur upp á sig: „Titlinum var rænt af honum“

Aron Guðmundsson skrifar
Felipe Massa (lengst til vinstri) fyrrum ökuþór Formúlu 1 leitar réttar síns vegn atviks tímabilið 2008 sem Bernie Ecclestone (vinstra megin við miðju) hæst setti stjórnandi Formúlu 1 það árið i vissi af og Flavio Briatore (hægra megin við miðju) liðsstjóri Renault á þeim tíma plottaði Fernando Alonso (lengst til hægri) þá ökumanni Renault í hag
Felipe Massa (lengst til vinstri) fyrrum ökuþór Formúlu 1 leitar réttar síns vegn atviks tímabilið 2008 sem Bernie Ecclestone (vinstra megin við miðju) hæst setti stjórnandi Formúlu 1 það árið i vissi af og Flavio Briatore (hægra megin við miðju) liðsstjóri Renault á þeim tíma plottaði Fernando Alonso (lengst til hægri) þá ökumanni Renault í hag Samsett mynd

Lög­menn fyrrum For­múlu 1 öku­þórsins Feli­pe Massa eru reiðubúnir að höfða skaða­bóta­mál fyrir skjól­stæðing sinn á hendur fyrrum stjórn­endum For­múlu 1 sem og Al­þjóða akstur­s­í­þrótta­sam­bandsins (FIA) vegna meints sam­særis sem kostaði Massa heims­meistara­titil öku­manna tíma­bilið 2008.

Greint er frá mála­vendingunum á vef Reu­ters sem hefur undir höndunum átta síðna greinar­gerð sem lög­fræðingar Massa hafa sent á Stefa­no Do­meni­cali, fram­kvæmda­stjóra For­múlu 1 og Mohammed Ben Sula­yem, for­seta FIA þar sem að greint er frá af­stöðu Massa í málinu en kvaðir eru á um að gefa út slíkt bréf áður en málið verður tekið fyrir í dóms­sal.

Lög­fræðingar Massa segja hann hafa verið fórnar­lamb sam­særis sem hátt settir fyrrum stjórn­endur innan For­múlu 1 og FIA tóku þátt í. 

Öku­þórinn hafi, auk heims­meistara­titilsins árið 2008, orðið af um það bil tíu milljónum evra sökum vís­vitandi á­reksturs öku­manns í Singa­púr kapp­akstrinum það árið.

Felipe Massa var öflugur í bíl Ferrari tímabilið 2008Vísir/Getty

„Cras­hgate“ skandallinn

At­burða­rásin árið 2008 í Singa­púr kapp­akstrinum er orðin vel þekkt undir nafninu Cras­hgate skandallinn.

Massa, sem á um­ræddu tíma­bili ók fyrir hið goð­sagna­kennda lið Ferrari, hafði ræst á rás­spól og leiddi kapp­aksturinn á fjór­tánda hring þegar að Nel­son Piquet, öku­maður Renault ók utan í vegg með þeim af­leiðingum að öryggis­bíll var kallaður út.

Það hagnaðist liðs­fé­laga Piquet hjá Renault, Spán­verjanum Fernando Alon­so sem með þessu náði í skottið á Massa og vann að lokum Singa­púr kapp­aksturinn.

Ári eftir Singa­púr kapp­aksturinn steig Piquet fram og sagði liðs­stjóra Renault hafa sagt sér að aka bíl sínum utan í vegg og seinna meir voru stjórn­endur liðsins settir í bann frá móta­röðinni.

Renault liðið tímabilið 2008. Nelson Piquet lengst til vinstri og Fernando Alonso lengst til hægri óku hjá Renault sem var stýrt af liðsstjóranum umdeilda Flavio Briatore sem er fyrir miðju myndarinnar. Vísir/Getty

Tíma­bilið 2008 endaði Massa í öðru sæti í heims­meistara­keppni öku­manna í For­múlu 1, einu stigi á eftir Lewis Hamilton, þá öku­manni McLaren sem stóð uppi sem heims­meistari.

„Massa er rétt­mætur heims­meistari öku­manna tíma­bilið 2008. For­múla 1 og FIA hunsuðu vís­vitandi það svindl sem átti sér stað, svindl sem sá til þess að heims­meistara­titlinum var rænt af honum,“ segir lög­fræðingur Massa hjá Enyo Law lög­fræði­stofunni.

Lewis Hamilton stóð uppi sem heimsmeistari að loknu tímabilinu 2008. Einn af hans sjö heimsmeistaratitlum ökumanna á ferlinum til þessaVísir/Getty

Berni­e Ecc­lestone var árið 2008 helsti stjórnandi For­múlu 1 og haft var eftir honum í mars fyrr á þessu ári að bæði hann sem og Max Mosl­ey, þá for­seti FIA, hafi vitað að Piquet hefði verið fyrir­skipað að aka utan í vegg í Singa­púr kapp­akstrinum en að þeir hafi ekkert að­hafst í málinu.

Max Mosl­ey, fyrrum for­seti FIA lést árið 2021 og Charli­e Whiting, sem var einnig einn af efstu stjórn­endum í kringum móta­röðina á þessum tíma, lést árið 2019.

Fjölmiðlar sóttu hart að Ecclestone í kjölfar skandalsins í SingapúrVísir/Getty

Vill rétt­læti

Massa hefur áður tjáð sig um þessa at­burða­rás í sam­tali við Reu­ters fyrr á árinu og þar segist hann vilja rétt­læti.

„Ef að hæst settu stjórn­endur For­múlu 1 og FIA vissu af því hvað væri að eiga sér stað þarna árið 2008 en að­höfðust ekkert í málinu, er það sann­gjarnt?“

Í bréfi lög­fræðinganna til Do­meni­cali og Sula­yem segir að ef ekki berist á­sættan­legt svar frá þeim muni Massa leita réttar síns fyrir dóm­stólum og fara fram á skaða­bætur.

Þá vill hann stað­festingu frá þessum mönnum að ef ekki hefði komið til þessa at­burða­rásar í Singa­púr árið 2008, hefði hann orðið For­múlu 1 heims­meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×