Um er að ræða lyf á borð við Ozempic og Wegovy, sem njóta gríðarlegra vinsælda um þessar mundir, þar sem sýnt hefur verið fram á að notkun þeirra getur aðstoðað fólk við að missa meira en tíu prósent líkamsþyngdar sinnar.
Sérfræðingar segja áhrif lyfjanna á ýmsa sjúkdóma ekki síst mega rekja til þess að ofþyngd er þekktur áhættuþáttur og getur meðal annars aukið líkurnar á krabbameini, hjartasjúkdómum og vitglöpum.
Novo Nordisk, fyrirtækið sem framleiðir Ozempic og Wegovy og hefur verði leiðandi í þróun umræddra lyfja, greindi frá því fyrr í þessum mánuði að Wegovy gæti minnkað líkurnar á slögum og hjartaáföllum um 20 prósent hjá þeim sem væru í yfir- eða ofþyngd.
Vísindamennirnir segja hins vegar ekki ljóst hvort um sé að ræða hreinan ávinning af þyngdartapi eða hvort lyfið sé að hafa bein áhrif á hjartað og æðakerfið.
Vonir standa einnig til að semaglutide gæti hjálpað eldra fólki að viðhalda líkamlegri virkni, þar sem ofþyngd og insúlínviðnám leiða gjarnan til vöðvarýrnunar meðal aldraðra. Þá stendur einnig til að rannsaka hvort lyfin, sem herma eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 og draga úr matarlöngun, eru einnig nothæf til að draga úr löngun í ávanabindandi efni.
Rannsóknir benda til þess að lyfin hafi ekki bara áhrif á matarlyst fólks heldur einnig löngun þess í áfengi og þá virðist tíðni vitglapa vera lægri hjá umræddum hóp. Vísindamenn segja þó frekari rannsókna þörf og að margt sé á huldu um virkni lyfjanna, ávinning og áhættu.