Erlent

Hvetja ríki til að banna inn­­grip til að stýra veðuröflunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sólarupprás í Þýskalandi.
Sólarupprás í Þýskalandi. epa/Martin Schutt

Climate Overshoot Commission, alþjóðleg nefnd sérfræðinga á sviði loftslagsmála, hvetur stjórnvöld heims til að heimila vísindarannsóknir á inngripum í náttúrulega ferla á borð við veðrabreytingar en banna framkvæmd þeirra.

Umrædd inngrip, nefnd „geoengineering“ á ensku, eru afar umdeild en áhugi á þeim hefur farið vaxandi vegna loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á veðurfar.

Athygli vekur að tillaga sérfræðinganna nær ekki til föngunar kolefnis úr andrúmsloftinu, sem þeir þvert á móti hvetja til. Þá kalla þeir eftir því að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt og að auknu fjármagni verði varið í að aðlaga samfélagið að áhrifum öfgafullra veðurviðburða.

Rannsóknirnar sem sérfræðingarnir vísa til ná meðal annars til tilrauna til að takmarka magn sólargeisla á jörðina, til dæmis með því að stuðla að aukinni endurvörpun skýja eða með speglum í geimnum.

Þeir segja hins vegar alltof hættulegt að framkvæmda inngrip af þessu tagi að svo stöddu, vegna ónógrar þekkingar á því hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér.

Guardian hefur eftir Pascal Lamy, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og núverandi stjórnarformanni sérfræðinganefndarinnar, að það sé ekki útilokað að það takist að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður en líkurnar á því að það takist ekki séu að aukast.

„Þetta veltur á því hvað við gerum,“ segir hann. Tilraunir með áhrif sólar á jörðina séu hins vegar ekki fýsilegar og að grípa verði til aðgerða nú þegar sum ríki séu farin að kanna möguleikann á eigin spýtur.

Lamy hvetur ríki heims til að ákveða hvert fyrir sig að banna tilraunastarfsemi af þessu tagi í stað þess að bíða eftir alþjóðlegu og samstilltu átaki. „Það er mín reynsla að það sé tímafrekt,“ segir hann.

Rannsóknir á mögulegum inngripum í náttúruöflin ættu að vera gagnsæjar og niðurstöðurnar opnar öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×