Riðlakeppni Sambandsdeildarinnar hófst í dag þegar Lille fékk Olimpija í heimsókn í A-riðli. Hákon var í byrjunarliði Lille. Hann var tekinn af velli á lokamínútu leiksins.
Undir lok fyrri hálfleiks braut Agustin Doffo á Hákoni innan teigs og víti var dæmt. Eftir skoðun á myndbandi var dómurinn staðfestur. Kanadamaðurinn Jonathan David tók spyrnuna og skoraði af öryggi.
Í uppbótartíma bætti Yusuf Yazici öðru marki við og gulltryggði sigur Lille. Hann slapp þá inn fyrir vörn Slóvenanna og skoraði af öryggi.
Hákon hefur spilað átta leiki með Lille síðan hann kom til liðsins frá FC Kaupmannahöfn í sumar.
Mörkin úr leik Lille og Olimpija Ljubljana má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.