Erlent

Spreng­ing og skot­bar­dag­i í Ankara

Samúel Karl Ólason skrifar
Svæðið við innanríkisráðuneytið var girt af í morgun og viðbúnaður er mikill.
Svæðið við innanríkisráðuneytið var girt af í morgun og viðbúnaður er mikill. AP/Ali Unal

Maður sprengdi sig í loft við húsnæði innanríkisráðuneytis Tyrklands í Ankara í morgun og annar var felldur í skotbardaga við lögregluþjóna. Tveir lögregluþjónar særðust í átökunum en þingsetning er í Tyrklandi í dag.

Sprengingin heyrðist víða en innanríkisráðuneytið er staðsett skammt frá þinghúsi Tyrklands, þar sem Recep Tayyip Erdogan, forseti, á að halda ræðu við þingsetninguna í dag.

Ali Yerlikaya, innanríkisráðherra Tyrklands, sagði á X í morgun að lögregluþjónarnir tveir hefðu særst í skotbardaga við annan árásarmannanna. Annar þeirra mun vera alvarlega særður. Þá sagði Yerlikaya að barátta Tyrkja gegn hryðjverkastarfsemi myndi halda áfram þar til síðasti hryðjuverkamaðurinn hefði verið felldur.

Myndband úr öryggismyndavél sem sýnir árásina gefur til kynna að fyrri árásarmaðurinn hafi ekki sprengt sig í loft upp, heldur hafi seinni árásarmaðurinn sprengt þann fyrri upp með eldflaugavörpu. Erfitt er þó að segja til um það með vissu.

Svæðinu við ráðuneytið hefur verið lokað. Sprengjusveitir hafa í morgun verið að skoða sendiferðabíl sem mennirnir voru á.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni í Tyrklandi og yfirvöld hafa ekki sakað neinn um hana enn. Vígamenn Íslamska ríkisins og Verkamannaflokkur Kúrda hefur get árásir í Tyrklandi á undanförnum árum.

Um það bil ár er síðan sex féllu og 81 særðist í sprengjuárás kúrdískra hryðjuverkamanna í Istanbúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×