Red Bull Racing hefur nú þegar tryggt sér heimsmeistaratitil bílasmiða árið 2023 og er aðeins tímaspursmál þar til að seinni heimsmeistaratitillinn, í flokki ökumanna, fullkomni tímabilið hjá liðinu.
Verstappen, sem hefur borið höfuð og herðar yfir keppinauta sína á tímabilinu, hefur 177 stiga forystu á toppi stigakeppni ökumanna.
Svo getur vel farið að Verstappen verði fyrsti ökumaðurinn í sögu Formúlu 1 til þess að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í sprettkeppninni sem fram fer í Katar á laugardaginn kemur.
Jafnvel þó Perez muni standa uppi sem sigurvegari í sprettkeppninni þá myndi Verstappen tryggja sér heimsmeistaratitilinn með því að enda í öðru til sjötta sæti.
En í grunninn mun Verstappen tryggja sér heimsmeistaratitilinn í Katar ef forskot hans á toppi stigakeppni ökumanna á liðsfélaga hans Sergio Perez stendur í 146 stigum eða meira eftir keppnishelgina.