Erlent

Sér­fræðingar segja hreint ó­trú­legt að fylgjast með veðra­þróuninni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður í Kanada stendur undir vatnsúða til að kæla sig í hitanum.
Maður í Kanada stendur undir vatnsúða til að kæla sig í hitanum. AP/Canadian Press/Christinne Muschi

Sérfræðingar eiga vart orð yfir öllum þeim hitametum sem falla nú hvert af öðru og segja allt stefna í að 2023 verði heitasta ár í manna minnum. Þá kann árið 2024 að verða enn heitara, segja þeir.

„September var, að mínu faglega áliti sem loftslagsvísindamaður, algjörlega klikkað,“ segir Zeke Hausfather við Berkeley Earth-loftslagsverkefnið.

Septembermánuður var sá heitasti frá því að mælingar hófust og munaði 0,5 gráðum. Þá var hann 1,8 gráðum heitari en meðalhitinn fyrir iðnvæðingu. Ágústmánuður og júlímánuður voru einnig þeir heitustu frá því að mælingar hófust, sá síðarnefndi heitasti mánuðurinn yfir höfuð.

„Ég er enn að berjast við að skilja hvernig eitt ár getur verið svona miklu heitara en fyrri ár,“ segir loftslagssérfræðingurinn Mika Rantanen við Veðurstofu Finnlands.

Þá hefur Guardian eftir Ed Hawkins, prófessor við University of Reading, að sumarið hafi verið ótrúlegt.

Loftslagsvísindamaðurinn Joelle Gergis segir þróun mála í Ástralíu „sláandi“. Á mörgun svæðium þar sem hitamet hafi fallið hafi þau verið 3 til 5 gráðum yfir meðaltali. Minna regnfall muni skila sér í þurrkum. Sumarið verði afar erfitt.

Hópur vísindamanna sem Guardian ræddi við í ágúst segja að jafnvel þótt hitinn í heiminum hafi verið mikill sé þróunin í takt við spár síðustu áratuga. Þá væru öfgafullir veðuratburðir einnig í takt við væntingar en hraðinn og alvarleikinn hefðu komið mönnum á óvart. Einnig áhrifin á viðkvæm samfélög.

Það sem væri mest sláandi væri hins vegar hitastig sjávar og tap íshellunnar á Suðurskautslandinu.

Vísindamennirnir vara við því að ef ekki verður gripið til aðgerða verði árið 2023 „venjulegt“ ár á næsta áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×