Enski boltinn

Rekinn burt af Emirates fyrir að abbast upp á Nasri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samir Nasri lenti í miður skemmtilegri uppákomu í leik Arsenal og Manchester City í gær. Hann spilaði fyrir bæði lið.
Samir Nasri lenti í miður skemmtilegri uppákomu í leik Arsenal og Manchester City í gær. Hann spilaði fyrir bæði lið. getty/Christian Liewig

Stuðningsmanni Arsenal var vísað út af Emirates leikvanginum á meðan leiknum við Manchester City í gær stóð. Hann abbaðist upp á fyrrverandi leikmanni liðsins.

Ólátabelgurinn kom auga á Samir Nasri, fyrrverandi leikmann Arsenal, og fannst hann eiga eitthvað vantalað við hann. Ekki nóg með það heldur byrjaði hann að slást við aðra stuðningsmenn Arsenal. 

Á endanum gripu öryggisverðir í taumana og ráku stuðningsmanninn í burtu og vísuðu honum út af Emirates. 

Ekki er vitað af hverju stuðningsmaðurinn ákvað að fara upp að Nasri og ybba gogg við Frakkann sem var skiljanlega brugðið eftir uppákomuna. Nasri var vissulega ekki sá vinsælasti hjá stuðningsmönnum Arsenal þegar hann gekk í raðir Manchester City 2011. Nasri lék með Arsenal í þrjú ár, alls 125 leiki og skoraði 27 mörk.

Nasri varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með City en var seldur til Antalyaspor í Tyrklandi 2017. Hann lagði skóna á hilluna fyrir þremur árum.

Arsenal vann City í gær, 1-0, með marki Gabriels Martinelli undir lokin. Þetta var fyrsti sigur Arsenal á City eftir tólf töp í röð og sextán deildarleiki í röð án sigurs.

Arsenal er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tuttugu stig, jafn mörg og Tottenham er á toppnum. Næsti leikur Arsenal er gegn Chelsea laugardaginn 21. október.


Tengdar fréttir

„Þetta er búið og sem betur fer unnum við“

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, gat leyft sér að fagna í leikslok er liðið vann mikilvægan 1-0 sigur gegn Machester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í kanttspyrnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×