Erlent

Mál varnar­mála­ráð­herrans fyrr­verandi fellt niður

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Claus Hjort Frederiksen á blaðamannafundi sem varnarmálaráðherra Danmerkur á vegum NATO í Eistlandi árið 2017.
Claus Hjort Frederiksen á blaðamannafundi sem varnarmálaráðherra Danmerkur á vegum NATO í Eistlandi árið 2017. EPA/Valda Kalnina

Saksóknari í Danmörku hefur ákveðið að fella niður mál gegn fyrrverandi varnarmálaráðherra landsins, Claus Hjort Frederiksen, sem ákærður var fyrir að hafa lekið ríkisleyndarmálum sem varða þjóðaröryggi.

Í fréttatilkynningu frá embætti saksóknara kemur fram að hæstiréttur Danmerkur hafi neitað beiðni um að réttarhöldin færu fram fyrir luktum dyrum.  Embættið hafi því ekki séð sér fært um að halda málinu áfram þar sem sönnunargögn í málinu varði þjóðaröryggi.

Málið snýr að því að árið 2020 staðfesti Frederiksen í viðtali við Weekendavisen og fleiri fjölmiðla að leyniþjónusta danska hersins, FE, hafi unnið með bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni, NSA, að njósnum í gegnum ljósleiðara.

Claus Hjort hefur ávallt neitað sök í málinu. Hann lét af þingmennsku í lok síðasta árs og missti þar með friðhelgi. Hefði hann enn setið á þingi hefði þingheimur þurft að greiða sérstaklega atkvæði um hvort ætti að ákæra hann.

Hinn 75 ára gamli Claus Hjort var varnarmálaráðherra Danmerkur árin 2016 til 2019. Áður hafði hann gegnt embætti fjármálaráðherra árin 2009 til 2011 og aftur frá 2015 til 2016. Hann var þingmaður frá 2005 til 2022.

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að hæstiréttur hafi hafnað beiðni saksóknara um að réttarhöld færu fram fyrir luktum dyrum. Þá hafi rétturinn auk þess ekki talið unnt að verða við því að halda gögnum málsins frá sakborningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×