Enski boltinn

Cloé Eyja með flottasta markið og það á móti Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloé Eyja Lacasse fagnar marki sínu fyrir Arsenal á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.
Cloé Eyja Lacasse fagnar marki sínu fyrir Arsenal á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Getty/James Gill

Kanadísk-íslenska knattspyrnukonan Cloé Eyja Lacasse skoraði fallegasta markið í ensku úrvalsdeildinni í októbermánuði en Barclays kvennadeildin valdi mark framherjans það flottasta.

Cloé Eyja hafði komið inn á sem varamaður í stórleik Arsenal á móti Manchester United og tryggði liði sínu jafntefli með frábæru langskoti upp í bláhornið. Það voru aðeins nokkrar sekúndur eftir af leiknum þegar Cloé reif sig lausa og lét vaða.

Mary Earps, markvörður enska landsliðsins og besti markvörður ársins í ár og sá besti á HM, átti ekki möguleika á því að verja þetta frábæra skot hennar.

Markið sem Cloé skoraði var hennar fyrsta fyrir Arsenal en hún kom til félagsins í haust eftir að hafa raðað inn mörkum hjá Benfica í Portúgal.

Cloé spilaði í mörg ár með ÍBV í Vestmannaeyjum og fékk á endanum íslenskan ríkisborgararétt. Hún fékk ekki leyfi frá FIFA til að spila með íslenska landsliðinu en komst á endanum í kanadíska landsliðið eftir magnaða frammistöðu sína í portúgalska boltanum.

Það má sjá markið hennar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×