Enski boltinn

Ten Hag betri en bæði Klopp og Arteta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik Ten Hag hefur stýrt Manchester United í fimmtíu leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
Erik Ten Hag hefur stýrt Manchester United í fimmtíu leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Vísir/Getty

Mikið er búið að skrifa um það að Manchester United liðið sé ekki á góðri leið undir stjórn hollenska stjórans Erik ten Hag. Hann er kannski að gera betri hluti en margir gera sér grein fyrir.

Tölfræði knattspyrnustjóra í fyrstu fimmtíu leikjum sínum sýnir kannski frammistöðu Ten Hag í öðru ljósi.

Eftir 1-0 sigur Manchester Unied á nýliðum Luton á Old Trafford um helgina þá er Hollendingurinn búinn að stýra United liðinu í fimmtíu leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

United menn hafa náð í 96 stig út úr þessum fimmtíu leikjum sem er betri árangur en hjá bæði Jürgen Klopp hjá Liverpool (92 stig) og Mikel Arteta hjá Arsenal (75 stig) þegar þeir hófu vegferð sína með þessum liðum.

Mikið hefur verið látið með hvernig þeir Klopp og Arteta hafa breytt öllu til betri vega hjá félögunum en á sama tíma á Ten Hag að vera á rangri leið með United.

Pep Guardiola ber reyndar höfuð og herðar yfir þá alla en hann náði í 112 stig í fyrstu fimmtíu leikjum sínum með Manchester City liðið.

Sigurinn á Luton var fjórði deildarsigur United liðsins í síðustu fimm leikjum en allir hafa þeir unnist með einu marki.

Eftir þennan sigur er Manchester United í sjötta sæti, sjö stigum á eftir toppliði Manchester City og fimm stigum frá Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×