Erlent

Fjölda­hand­tökur vegna gruns um skipu­lagningu hryðju­verka

Atli Ísleifsson skrifar
Boðað hefur verið til blaðamannafundar vegna aðgerða dönsku lögreglunnar í morgun í hádeginu í dag.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar vegna aðgerða dönsku lögreglunnar í morgun í hádeginu í dag. Getty

Lögregla í Danmörku hefur handtekið fjölda einstaklinga og framkvæmt húsleit víða um land í samhæfðum aðgerðum í morgun vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka í landinu.

Það var danska öryggislögreglan PET sem stóð fyrir aðgerðunum en ekki er ljóst að svo stöddu hver sé fjöldi handtekinna. Lögregluembætti víða um land hafa þó tekið þátt í aðgerðunum.

Lögregla staðfestir í samtali við danska ríkisútvarpið að handtökur hafi farið fram meðal annars í vesturhluta Árósa þar sem aðallestarstöð borgarinnar hefur verið girt af og í Óðinsvéum.

Kaupmannahafnarlögreglan og PET hafa boðað til blaðamannafundar í hádeginu vegna málsins.

Viðbúnaðarstig í Danmörku vegna hryðjuverkaógnar er nú á fjórða stigi af fimm, en viðbúnaðarstig var hækkað í ágúst eftir að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hvöttu til árása gegn Danmörku vegna fjölda atvika þar sem kveikt hafði verið í Kóraninum.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir stöðuna mjög alvarlega. „Þetta er eins alvarlegt og getur orðið. Ég er ánægð með störf yfirvalda, en þetta segir eitthvað um þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í Danmörku,“ segir Frederiksen í samtali við DR.

Uppfært 12:50: 

Á blaðamannafundinum kom fram að þrír einstaklingar hafi verið handteknir í aðgerðunum í Danmörku í morgun og einn í Hollandi. Mennirnir erum grunaðir um að hafa unnið að skipulagningu hryðjuverka í Danmörku. Talsmaður lögreglu segir að mennirnir hafi tengsl við glæpasamtökin Loyal To Familia (LTF).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×