Hægri popúlistaflokkurinn Framfaraflokkurinn (SNS) fór með stórsigur í þingkosningum Serbíu síðasta sunnudag. Aleksandar Vucic forseti Serbíu er stofnandi flokksins. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna og sögðu misræmi hafa verið í talningu atkvæða. Vucic vísar ásökununum á bug.
Aðgerðasinnar úr stjórnarandstöðunni mótmæltu meinta kosningasvindlinu friðsamlega eftir að niðurstöður kosninganna voru birtar. Í gær færðist hiti í mótmælin og mótmælendur fyrir utan ráðhús borgarinnar Belgrad köstuðu steinum í glugga hússins með þeim afleiðingum að rúður brotnuðu.
Þá gerðu einhverjir atlögu að því að brjótast inn í ráðhúsið. Lögreglumenn beittu táragasi til að leysa mótmælendahópinn upp. Aðgerðasinnarnir segja lögreglumenn hafa beitt of miklu valdi.
Radomir Lazovic, meðstjórnandi stjórnarandstöðuflokksins Green-Left Front, segir lögreglumenn hafa barið hann og aðra mótmælendur með kylfum. Meira en þrjátíu manns voru handteknir í óeirðunum og átta lögreglumenn særðust, samkvæmt frétt BBC.
Myndskeið af mótmælunum frá fréttaveitunni Reuters má sjá hér að neðan.