Heimsmeistaramótið í pílukasti er í fullum gangi í Alexandra Palace í London þessa dagana. Margar stórstjörnur hafa látið ljós sitt skína en óvæntasta stjarnan er án efa hinn 16 ára gamli Luke Littler sem er kominn áram í 16-manna úrslit.
Littler hefur fengið mikla athygli og hafa fjölmiðlar keppst við að birta fréttir um hann. Móðir hans birti meðal annars mynd á samfélagsmiðlinum X nú um jólin þar sem Littler sást sitja fyrir framan jólatréð að opna jólagjöfina sína.
Just a 16 year old opening his prezzys pic.twitter.com/ms1bvCFlbE
— Lisa Littler (@LisaLittler3) December 25, 2023
Ein jólagjöf Littler gladdi hann meira en aðrar. Hann er nefnilega mikill stuðningsmaður Manchester United og fær að heimsækja Old Trafford á nýju ári.
„Ég fékk dót fyrir Xbox tölvuna mína, fjarstýringu og gjafabréf og síðan tvo miða í skoðunarferð um Old Trafford. Þannig að ég fer þangað eftir heimsmeistaramótið,“ sagði Littler í viðtali.
„Ég hef aldrei farið í skoðunarferðina áður. Ég hef séð nokkra leiki þar,“ bætti Littler við.
Þegar síðan var nefnt við hann að hann gæti mögulega heimsótt Old Trafford með heimsmeistarabikarinn í farteskinu þá glotti hann.
„Vonandi get ég sýnt þeim hvernig á að vinna bikar,“ en gengi United hefur verið brösugt síðustu misserin.