Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur er nýkomin heim til Íslands eftir sex vikna starf á einu af fáum starfhæfum sjúkrahúsum á Gaza sem staðsett er í Rafahborg. Þangað hafa tugþúsundir ef ekki hundruð þúsunda manna flúið átökin á Gazasvæðinu.
„Ástandið er vægast sagt slæmt. Spítalasvæðið og spítalinn sjálfur er fullur af fólki. Það eru mörg þúsund manns sem búa á spítalasvæðinu. Allir gangar á spítalanum eru fullir af fólki. Fólk hefur leitað þarna í vernd og hreinlega hefur spítalann sem sitt heimili,“ segir Elín.
Rúmlega helmingur allra bygginga á Gazaströndinni, sérstaklega í norðurhlutanum og á miðhlutanum, eru mikið skemmdar eða rústir einar eftir stöðugar loftárásir Ísraelsmanna í um þrjá mánuði. Rafah er í suðurhlutanum þar sem árásir hafa ekki verið eins miklar og því hefur fólk flúið þangað.
„Þeir sem koma inn á skurðstofu til okkar; þar er mikið um beinbrot. Það er mikið um að fólk missi útlimi, fótleggi og handleggi og það er mjög mikið um slæma bruna sem við reynum að sinna eftir besta megni.“
Ein komma sjö milljónir íbúa Gaza, eða um 80 prósent þeirra, eru á vergangi vegna átakanna. Elín segir algengt að fólk hafi misst marga ástvini og jafnvel alla fjölskyldu sína í árásunum. Nú hafa tæplega 30 þúsund manns fallið og enn fleiri særst, þar af mjög margt ungt fólk en mikill meirihluti Palestínsku þjóðarinnar er undir þrítugu.
Elín Jakobína starfar alla jafna á háskólasjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur farið á vegum Alþjóðarauðakrossins meðal annars til Suður-Súdan, Afganistans og Sýrlands. Ekki væri hægt að bera saman stöðuna á spítalanum í Rafah og á evrópskum sjúkrahúsum.
„Það er mikill skortur á því sem þarf til að sinna þessum sjúklingum inni á Gaza. Þannig að við verðum að reyna að sinna sem flestum með tiltölulega litlu,“ segir Elín.
Það væri skortur á lyfjum, lækninga áhöldum og mat en Ísraelsmenn takmörkuðu mjög umferð með hjálpargögn sem koma í gegn frá Egyptalandi. Því miður væri því ekki hægt að bjarga öllum.
„Það er vægast sagt erfitt fyrir okkur. Við verðum alltaf að hafa plan B við höndina. Af því við höfum ekki það sem við myndum hafa hér á Landsspítalanum eða annars staðar. Vegna þess að hlutirnir klárast og ná ekki til okkar,“ segir Elín Jakobína Oddsdóttir.