Formúla 1

Alon­so tjáði sig um Mercedes orð­róma: „Staða mín er góð“

Aron Guðmundsson skrifar
Gæti Fernando Alonso fært sig yfir til Mercedes eftir komandi tímabil í Formúlu 1? 
Gæti Fernando Alonso fært sig yfir til Mercedes eftir komandi tímabil í Formúlu 1?  Ayman Yaqoob/Getty Images

Fernando Alon­so, tvö­faldur heims­meistari í For­múlu 1 og nú­verandi öku­maður Aston Martin, segist ekki hafa átt sam­töl við for­ráða­menn Mercedes þess efnis að hann taki yfir sæti Lewis Hamilton hjá liðinu að komandi tíma­bili af­loknu þegar að Bretinn skiptir yfir til Ferrari.

Fréttirnar af skiptum sjö­falda heims­meistarans Lewis Hamilton yfir til Ferrari á næsta ári voru risa­stórar og þjóf­störtuðu að ein­hverju leiti öku­manns­markaðnum fyrir tíma­bilið 2025.

Alon­so, reynslu­bolti í móta­röðinni er einn þeirra sem hefur verið orðaður við öku­manns­sæti hjá Mercedes og yrðu þau skipti ein­hvers konar drauma­skipti í augum á­huga­fólks um For­múlu 1.

Aston Martin, frum­sýndi fyrr í dag bíl sinn fyrir komandi tíma­bil og gafst fjöl­miðlum um leið tæki­færi til þess að ræða við Alon­so þar sem hann að sjálf­sögðu fékk spurningar um Mercedes, Hamilton og sína fram­tíð.

„Það eru að­eins þrír heims­meistarar á rás­röðinni, hraðir heims­meistarar, og ég er lík­legast sá eini sem er á lausu fyrir tíma­bilið 2025. Staða mín er góð,“ svaraði Alon­so sem verður einn af fjór­tán nú­verandi öku­mönnum í For­múlu 1 sem renna út á samningi eftir komandi tíma­bil.

Alon­so er klár­lega einn af þeim öku­mönnum sem for­ráða­menn Mercedes munu horfa til þegar á­kveða á hvaða öku­maður taki sæti sjö­falda heims­meistarans Lewis Hamilton hjá liðinu.

Efni­legir öku­menn eru að koma upp úr akademíu þýska risans en ætla má að það verði of snemmt fyrir ein­hvern af þeim að taka stóra stökkið yfir í For­múlu 1 á næsta ári.

Hins vegar gæti það reynst ansi far­sæl lausn að fá inn þá hinn 43 ára gamla Alon­so til þess að brúa bilið þarna á milli. Alon­so sýndi það á síðasta tíma­bili, í bíl Aston Martin, að hann hefur engu gleymt. Takist honum að sýna slíkt hið sama á komandi tíma­bili, yrði það ansi erfitt fyrir for­ráða­menn Mercedes að horfa fram hjá honum.

Sjálfur segist Alon­so ekki hafa átt í sam­skiptum við forráðamenn Mercedes eftir að greint var frá verðandi skiptum Hamilton til Ferrari.

„Á sama tíma, þegar að ég tek á­kvörðun um fram­tíð mína í For­múlu 1, mun fyrsta sam­tal mitt alltaf vera við Aston Martin,“ segir Alon­so sem hafði þó einnig orð á því að frammi­staða hans á síðasta tíma­bili geri hann að öllum líkindum eftir­sóttan fyrir önnur lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×