Erlent

Febrúar heitasti febrúar­mánuður sögunnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk horfir á sólina setjast á óvenju heitum febrúardegi í Kansas City í Bandaríkjunum.
Fólk horfir á sólina setjast á óvenju heitum febrúardegi í Kansas City í Bandaríkjunum. AP/Charlie Riedel

Febrúar síðastliðinn var heitasti febrúar mánuður sögunnar og níundi mánuðurinn í röð þar sem fyrra hitamet fellur. Þá hefur yfirborð sjávar aldrei mælst heitara en það mældist í síðasta mánuði.

Febrúar var 1,77 gráðum heitari en meðalhiti febrúarmánaða á árunum 1850 til 1900 og 0,18 gráðum heitari en meðalhitinn árin 1991 til 2020. Meðalhitinn síðustu tólf mánuði var einnig sá hæsti sem mælst hefur í sögunni, eða 1,56 stigum hærri en fyrir iðnbyltinguna.

Þetta þýðir að 1,5 gráðu múrinn, sem miðað var við í loftslagsviðræðum til að takmarka verstu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar, hefur verið rofinn. Að minnsta kosti tímabundið.

„Það eru nú svo margar sannanir sem styðja við þá staðreynd að loftslagið er að hlýna að ef þú afneitar loftslagsbreytingum þá geturðu alveg eins haldið því fram að jörðin sé flöt,“ segir Friederike Otto, sérfræðingur í loftslagsfræðum við Grantham-stofnunina við Imperial College London.

Hann segir það ekki þurfa að koma neinum á óvart að annað hitamet hafi fallið. Maðurinn haldi áfram að brenna olíu, gasi og kolum og tengslin þarna á milli séu mjög skýr.

„Það er engin silfurkúla eða töfralausn þegar kemur að loftlagsmálum. Við vitum hvað við þurfum að gera: Hætta að brenna jarðefnaeldsneytum og skipta þeim út fyrir sjálfbæra, endurnýjanlega orkugjafa. Þar til við gerum það munu öfgafullir veðuratburðir knúnir af loftslagsbreytingum halda áfram að eyðileggja líf og lífsviðurværi.“ 

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×