Lífið

Von á til­kynningu frá RÚV vegna Heru

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hera Björk fór með sigur úr býtum í Söngvakeppninni og yrði öll önnur ár sjálfkrafa keppandi fyrir Íslands hönd í Eurovision.
Hera Björk fór með sigur úr býtum í Söngvakeppninni og yrði öll önnur ár sjálfkrafa keppandi fyrir Íslands hönd í Eurovision. Vísir/Hulda Margrét

Von er á tilkynningu frá Ríkisútvarpinu vegna ákvörðunar um þátttöku Íslands í Eurovision. Þetta segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Eins og fram hefur komið er 11. mars síðasti dagurinn til þess að tilkynna opinberlega um þátttöku í Eurovision. Áður hefur komið fram að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvort Ísland muni taka þátt. Sagði í svörum Ríkisútvarpsins til Vísi í síðustu viku að það væri enn til skoðunar.

Eins og alþjóð veit fór Hera Björk með sigur af hólmi í Söngvakeppninni þar síðustu helgi. Öll önnur ár myndi hún því sjálfkrafa fara út fyrir Íslands hönd í Eurovision.

Í janúar tilkynntu stjórnendur Ríkisútvarpsins hinsvegar, eftir þrýsting um að sniðganga Eurovision í ár ef Ísrael tekur þátt, að þeir hefðu ákveðið að taka ekki ákvörðun um þátttöku Íslands í Eurovision fyrr en að lokinni Söngvakeppninni. Það yrði gert í samráði við sigurvegara keppninnar.

Hera Björk hefur ítrekað lýst því yfir að hún vilji fara út til Malmö fyrir Íslands hönd. Ekki var einhugur um það í hópnum sem stóð að atriði Heru en Ásdís María Viðarsdóttir, einn höfunda lagsins sagði samvisku sína ekki geta leyft það.

Ákvörðun tekin síðar í dag 

Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri Söngvakeppinnar, segir í skriflegu svari til Vísis að það sé Stefán Eiríkssonar útvarpsstjóra og Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins að taka ákvörðun um málið.

Ekki náðist í Skarphéðinn vegna málsins. Í skriflegu svari til Vísis segir Stefán nú að þegar ákvörðun um þátttökuna liggi fyrir muni koma tilkynning frá Ríkisútvarpinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×