Innherji

Vöxtum haldið ó­breyttum fjórða fundinn í röð en ó­vissa minnkað eftir kjara­samninga

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en í yfirlýsingu peningastefnunefndar er meðal annars vísað til þess að verðbólguvæntingar eru yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en í yfirlýsingu peningastefnunefndar er meðal annars vísað til þess að verðbólguvæntingar eru yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát. Vísir/Vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent, sem er í samræmi við væntingar meirihluta markaðsaðila og greinenda, en segir að óvissa hafi minnkað eftir að kjarasamningar kláruðust á almennum vinnumarkaði. Nefndin varar hins vegar við hættu á launaskriði vegna spennu í þjóðarbúinu og að verðbólga kunni að reynast þrálát.

Þetta er fjórði fundurinn í röð sem peningastefnunefndin heldur vöxtunum óbreyttum – á síðasta fundi í byrjun mars vildi einn nefndarmaður samt lækka vextina um 25 punkta – en ákvörðun hennar í dag kemur í kjölfar þess að verðbólga minnkaði mun minna en spár gerðu ráð fyrir í liðnum mánuði þegar hún lækkaði úr 6,7 prósent í 6,6 prósent.

„Undirliggjandi verðbólga hefur einnig hjaðnað en er líkt og mæld verðbólga enn vel yfir verðbólgumarkmiði. Verðbólguvæntingar eru einnig yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát,“ segir í yfirlýsingu hennar.

Í vaxtakönnun Innherja, sem var framkvæmd dagana 14. til 16. mars, var nokkur meirihluta þátttakenda á þeirri skoðun að vöxtum yrði haldið óbreyttum enn um sinn.

Var meðal annars vísað til þess að þrátt fyrir skaplega niðurstöðu í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði myndi vega þyngra að síðasta verðbólgumæling var slæm og því er erfitt fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans að réttlæta á þessari stundu að hefja vaxtalækkunarferlið. Þess í stað væri freistandi að bíða með lækkun að minnsta kosti fram í maí og fá tvær viðbótarmælingar í sarpinn sem gæfu aukna vissu um að verðbólgan sé að stefna í rétta átt eftir heita mælingu í febrúar.

Í yfirlýsingunni frá peningastefnunefnd Seðlabankans er meðal annars bent á að nýleg endurskoðun Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum sýndi að hagvöxtur á síðustu árum var meiri en fyrri tölur bentu til. Spenna í þjóðarbúinu virðist því vera umfram það sem áður var talið. Þrátt fyrir að áfram væri að hægja á vexti efnahagsumsvifa þá sé taumhald peningastefnunnar enn töluvert.

Þá segir hún að óvissa hafi minnkað eftir undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. „Spennan í þjóðarbúinu gæti þó leitt til þess að launaskrið verði meira en ella. Einnig gætu aðgerðir í ríkisfjármálum aukið eftirspurn og verðbólguþrýsting,“ að sögn nefndarinnar, og bætir við í lok yfirlýsingunnar:

„Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Þeir sem spáðu því í könnun Innherja að nefndin myndi lækka vextina á fundi sínum vísuðu meðal annars til þess að raunvaxtaaðhaldið sé orðið mjög mikið. Seðlabankinn vilji þannig ekki vera of langt á eftir kúrvunni og halda framsýnum raunvaxtamun, sem mun aukast með lækkandi verðbólgu á næstu mánuðum, of háum – en miðað við óbreytt vaxtastig væru raunstýrivextir komnir yfir 4 prósent á öðrum fjórðungi miðað við spá um liðlega fimm prósenta verðbólgu.

„Í raun vill bankinn ekki gera sömu hagstjórnarmistökin, með öfugum formerkjum, og í vaxtalækkunarferlinu. Þrátt fyrir það má ekki taka því sem svo að björninn sé unnin, samningarnir búa til svigrúm til vaxtalækkana en talsvert minna en væntingar standa til. Ég tel að kjarasamningarnir hafi áhrif til þess að verðbólguspáin hækki lítillega. En með öðrum þarf hann að sýna smá framsýni,“ sagði í rökstuðningi eins þátttakenda fyrir því að hefja vaxtalækkunarferlið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×