Erlent

Tugir létust í elds­voða á skemmti­stað

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Skemmtistaðurinn var staðsettur tveimur hæðum fyrir neðan jarðhæð hússins, sem er í heildina sextán hæðir.
Skemmtistaðurinn var staðsettur tveimur hæðum fyrir neðan jarðhæð hússins, sem er í heildina sextán hæðir. EPA

Að minnsta kosti 29 létu lífið og einn slasaðist þegar eldur kom upp á skemmtistað í Istanbul í Tyrklandi í dag. 

Davut Gül talsmaður yfirvalda í Istanbul sagði eldsupptök ekki liggja fyrir. Hinir látnu eru að hans sögn taldir tengjast framkvæmdum á skemmtistaðnum, sem stóðu yfir þegar eldurinn kom upp skömmu eftir hádegi í dag. 

Lögreglan í Istanbul hefur gefið út handtökuskipun á hendur átta manns í þágu rannsóknar málsins, þar á meðal á framkvæmdastjóra skemmtistaðarins og umsjónarmann viðgerðanna. Þrír þeirra hafa þegar verið handteknir.

Fram kemur í frétt BBC að Recep Tayyip Erdogan forseta Tryklands hafi verið gert kunnugt um eldsvoðann.EPA

Mikinn reyk lagði frá inngangi skemmtistaðarins, sem er tveimur hæðum undir jarðhæð, þegar slökkvilið bar að garði. Fjöldi látinna hefur hækkað eftir því sem liðið hefur á daginn.

Ekrem Imamoglu borgarstjóri Istanbul sagði skemmtistaðinn ekki hafa sótt um leyfi fyrir þeim framkvæmdum sem fóru fram í kjallaranum. Hann vottaði ættingjum hinna látnu samúð í færslu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×