Gísli Marteinn lýsti því yfir á dögunum að hann myndi ekki taka það að sér í ár. Ástæðan væri framganga Ísrael á Gasa og viðbrögð stjórnenda Eurovision við henni, eða skortur þar á. Keppnin fyrir honum snerist um stemningu og gleði en Gísli sagðist finna fyrir hvorugu í ár.
Guðrún Dís, betur þekkt sem Gunna Dís, starfar sem útvarpskona á Rás 2. Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að vinna við að finna eftirmann Gísla væri langt á veg komin. Þá mun Felix Bergsson ekki verða fararstjóri hópsins þar sem eiginmaður hans Baldur Þórhallsson er í forsetaframboði.
Eins og fram hefur komið hefur þátttaka Íslands í Eurovision í ár reynst afar umdeild. Skorað var á Ríkisútvarpið að taka ekki þátt. Lagði Ríkisútvarpið í kjölfarið ábyrgð á hendur sigurvegara Söngvakeppninnar að ákveða hvort keppt yrði í Eurovision.
Hera Björk keppir fyrir hönd Íslands í Eurovision. Hún hefur reglulega sagt að henni finnist mikilvægt að Ísland eigi rödd í keppninni í ár.