Erlent

Lík þriggja brimbretta­kappa fundust í brunni í Mexíkó

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Brimbrettakappi syndir með blóm út á haf, til minningar um kollega sína.
Brimbrettakappi syndir með blóm út á haf, til minningar um kollega sína. AP/Karen Castaneda

Yfirvöld í Mexíkó hafa fundið lík þriggja túrista, tveggja Ástrala og Bandaríkjamanns, sem hurfu á dögunum þegar þeir voru í brimbrettaferð á Baja-skaganum.

Líkamsleifarnar fundust í gömlum brunni ásamt fjórða líkinu, sem var búið að vera mun lengur í brunninum og talið ótengt málinu. 

Fjölskyldur mannanna hafa borið kennsl á líkin en talið er að þeir hafi lent í átökum við hóp manna sem vildi stela bíl þeirra. Svo virðist sem félagarnir þrír hafi reynt að streitast á móti með þeim afleiðingum að þeir voru allir skotnir til bana. 

Árásarmennirnir földu síðan líkin og kveiktu í tjöldum túristanna, til að reyna að fela ummerki. 

Miðlar ytra hafa leitt að því líkum að skipulögð glæpasamtök hafi komið að morðunum en mennirnir voru allir þrír skotnir í höfuðið, eins og við aftöku. Lögregla segir of snemmt að segja til um slíkt; málið sé í rannsókn en enn sem komið er líti út fyrir að um rán hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×