Enski boltinn

Líkir Havertz við Liverpool-hetju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kai Havertz er í lykilhlutverki hjá Arsenal.
Kai Havertz er í lykilhlutverki hjá Arsenal. getty/Robbie Jay Barratt

Gary Neville hefur líkt Kai Havertz, leikmanni Arsenal, við fyrrverandi leikmann Liverpool.

Havertz lagði upp sigurmark Arsenal fyrir Leandro Trossard gegn Manchester United í gær. Með sigrinum komust Skytturnar á topp ensku úrvalsdeildarinnar.

Eftir að hafa farið rólega af stað hjá Arsenal eftir komuna frá Chelsea í sumar hefur Havertz spilað mjög vel að undanförnu. Hann hefur skorað tólf mörk og lagt upp sjö í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Neville hefur hrifist af frammistöðu Havertz og segir hann minna sig á fyrrverandi leikmann Liverpool, Roberto Firmino.

„Havertz er að gera svipaða hluti og Firmino gerði hjá Liverpool. Hann dregur sig til baka, tengir spilið og er hættulegur. Hann nýtist liðinu og gerir allt það sem það þarf í leikjum,“ sagði Neville.

„Munið, að lengi vel á tímabilinu voru sett spurningarmerki við Havertz en hann hefur sannað mikilvægi sitt. Mér fannst Firmino frábær leikmaður fyrir Liverpool. [Sadio] Mané og [Mohamed] Salah fengu mesta hrósið en ég nefndi alltaf Firmino vegna þess hvernig hann spilaði, tengdi saman miðju og sókn. Havertz er að gera svipaða hluti.“

Arsenal er með eins stigs forskot á Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. City á tvo leiki eftir en Arsenal aðeins einn, gegn Everton á sunnudaginn.

Til að verða meistarar í fyrsta sinn í tuttugu ár þurfa erkifjendurnir í Tottenham að rétta Arsenal-mönnum hjálparhönd þegar þeir fá City í heimsókn á morgun. Eftir leikinn gegn United sagði Havertz að hann myndi styðja Spurs í leiknum annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×