Erlent

Mynd fer á flug í kjöl­far til­rauna til að láta fjar­lægja hana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndin af Rinehart er efst fyrir miðju.
Myndin af Rinehart er efst fyrir miðju. epa/Lukas Coch

Krafa einnar ríkustu konu heims um að mynd af henni sem nú er til sýnis í National Gallery of Australia verði fjarlægð hefur haft þau áhrif að myndin hefur farið út um allan heim á síðustu dögum og vakið mun meiri athygli en ella.

Milljarðamæringurinn Gina Rinehart, sem varð vellauðug af námuvinnslu, virðist síður en svo ánægð með myndina, sem er eftir verðlaunalistamanninn Vincent Namatjira. Skiljanlegt, ef til vill, þar sem Rinehart er fremur sjúskuð á myndinni og undirhakan í aðalhlutverki.

Ákvörðun Rinehart um að krefjast þess að myndin verði tekin niður hefur hins vegar haft öfugar afleiðingar, ef tilgangurinn var að koma henni úr birtingu, þar sem hún fór í kjölfarið á flakk í netheimum.

Rinehart virðist þarna hafa orðið fyrir hinum svokölluðu „Streisand-áhrifum“; þegar tilraunir til að fela eitthvað verða óvart til þess að vekja athygli. 

Fyrirbærið sækir nafn sitt til söng- og leikkonunnar Barbru Streisand og þess þegar tilraunir lögmanna hennar til að fá mynd af heimili listakonunnar fjarlægðar úr safni mynda sem teknar voru til að sýna fram á strandrof urðu til þess að myndin rataði í fjölmiðla og fór eins og eldur í sinu um netheima.

Talsmenn National Gallery of Australia hafa hafnað umleitan Rinehart en segjast fagna umræðu um sýningar þess og gildi listarinnar. Tilgangur safnsins sé að hvetja fólk til að kynna sér og upplifa list.

Rinehart hefur látið fé af hendi rakna til safnsins en hefur ekki tjáð sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×