Enski boltinn

Rashford líka skilinn eftir heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford átti erfitt tímabil með Manchester United og horfir á EM heima í stofu í sumar.
Marcus Rashford átti erfitt tímabil með Manchester United og horfir á EM heima í stofu í sumar. Getty/Simon Stacpoole

Marcus Rashford verður ekki með enska landsliðinu á Evrópumótinu í fótbolta í Þýskalandi í sumar. Enskir fjölmiðlar segja frá því að Gareth Southgate ætli að skilja sóknarmanninn eftir heima.

Þessi 26 ára gamli framherji Manchester United hefur ekki fundið sig á þessu tímabili og var bara með sjö mörk og tvær stoðsendingar í 33 deildarleikjum í vetur.

Það hefur gengið á ýmsu innan sem utan vallar hjá Rashford á þessari leiktíð. Einn besti leikmaður Englendinga á HM í Katar 2022 fær því ekki tækifæri til að klæðast enska landsliðsbúningnum á stóra sviðinu í sumar.

Southgate landsliðsþjálfari mun tilkynna æfingahópinn sinn í dag en erlendir fjölmiðlar hafa komist yfir vitneskju um hópinn.

Fyrr í dag kom í ljós að miðjumaðurinn Jordan Henderson verður ekki í hópnum ekki frekar en vængmaðurinn Raheem Sterling.

Jarrad Branthwaite, Curtis Jones, Jarell Quansah og Adam Wharton eru aftur á móti allir í hópnum en enginn þeirra hefur spilað landsleik.

Branthwaite er 21 árs miðvörður Everton, Quansah er 21 árs miðvörður Liverpool, Jones er 23 ára miðjumaður Liverpool og Wharton er 20 ára leikmaður Crystal Palace.

Liðsfélagar Wharton hjá Palace, Eberechi Eze, Marc Guehi og Dean Henderson, eru allir sagðir vera í hópnum. Þar eru líka Levi Colwill, miðvörður Chelsea, Jarrod Bowen, framherji West Ham og James Trafford, markvörður Burnley.

Kobbie Mainoo, miðjumaður Manchester United, Jack Grealish, kantmaður Manchester City og Ivan Toney, framherji Brentford eru líka allir í hópnum samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.

Lokahópurinn verður skipaður 26 leikmönnum en lokafrestur til að tilkynna hann inn til UEFA er á miðnætti 7. júní.

Enska landsliðið kemur saman 29. maí og spilar síðan vináttulandsleiki við Bosníu 3. júní og við Ísland 7. júni.

Hér fyrir neðan má sjá hópinn en hann telur 33 leikmenn. Sjö þeirra fara því ekki með á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×