Erlent

Níu létust á fram­boðs­fundi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Lögreglumenn við sviðið sem hrundi í gærkvöldi.
Lögreglumenn við sviðið sem hrundi í gærkvöldi. AP Photo/Alberto Lopez

Að minnsta kosti níu eru látnir í Mexíkó og um fimmtíu slasaðir eftir að hluti sviðs hrundi í norðurhluta landsins í gærkvöldi.

Fjöldi fólks var uppi á sviðinu þegar atvikið átti sér stað en um var að ræða kosningafund fyrir forsetaframbjóðandann Jorge Alvarez Maynez sem var að halda ræðu í grennd við borgina Monterrey. Svo virðist sem að sterk vinhviða hafi orsakað hrunið að sögn AP fréttaveitunnar en Maynez sjálfan sakaði ekki. Að minnsta kosti eitt barn er á meðal hinna látnu.

Þegar vindhviðan kom hrundi þak sviðsins með ljósabúnaði yfir fólkið sem var á sviðinu og upp við það. Maynez og fleiri sem voru aftast á sviðinu urðu hinsvegar ekki fyrir brakinu. Þrír hinna slösuðu gangast nú undir aðgerð á spítala en hinir eru minna særðir.

Forsetakosningar í Mexíkó fara fram annan júní næstkomandi. Þær hafa verið óvenju blóðugar, en um 200 opinberir starfsmenn, stjórnmálamenn og frambjóðendur hafa verið myrtir í undanfara kosninganna eða þaim hótað lífláti. Í þessu tilviku er þó talið að um óhapp hafi einungis verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×