Erlent

Fær ekki að bjóða sig fram fyrir Verka­manna­flokkinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í bréfinu sem birtist í Observer virtist Abbott vilja meina að ekki væri hægt að bera saman kynþáttafórdóma gegn gyðingum annars vegar og svörtum hins vegar.
Í bréfinu sem birtist í Observer virtist Abbott vilja meina að ekki væri hægt að bera saman kynþáttafórdóma gegn gyðingum annars vegar og svörtum hins vegar. epa/Vickie Flores

Diane Abbott, fyrsta svarta þingkona Bretlands, hefur greint frá því að hún muni ekki fá að bjóða sig fram fyrir Verkamannaflokkinn í komandi þingkosningum.

Abbott, sem hefur setið á þingi frá 1987, var vikið tímabundið úr flokknum í fyrra eftir að hún ritaði bréf til birtingar í Observer þar sem hún virtist gera lítið úr gyðingaandúð og gerði því skóna að gyðinga og aðrir minnihlutahópar á borð við Róma-fólk sættu fordómum á pari við rauðhærða.

Rannsókn var hafin á framgöngu Abbott og hún skikkuð til að sitja námskeið um gyðingaandúð. Það gerði hún og í kjölfarið var hún tekin aftur inn í flokkinn og endurheimti hlutverk sitt innan þingflokksins.

Henni hefur hins vegar verið tilkynnt að hún muni ekki fá að bjóða sig fram fyrir Verkamannaflokkinn í kosningunum 4. júlí næstkomandi og stendur því frammi fyrir því að velja á milli þess að fara fram sem óháður þingmaður eða sækjast ekki eftir endurkjöri.

Abbott var skuggainnanríkisráðherra þegar Jeremy Corbyn var formaður Verkamannaflokksins en hann var ítrekað sakaður um að leyfa gyðingaandúð að líðast innan flokksins og að lokum vikið úr flokknum vegna viðbragða sinna við skýrslu um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×