Erlent

Nýtt bólu­efni gegn sortu­æxlum helmingar líkur á endur­komu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þeir sem eru með marga fæðingarbletti ættu að fara reglulega í blettaskoðun.
Þeir sem eru með marga fæðingarbletti ættu að fara reglulega í blettaskoðun. Getty

Nýtt mRNA bóluefni gegn sortuæxlum, sem er sérsniðið að hverjum sjúklingi fyrir sig, helmingar líkurnar á dauða og endurkomu krabbameinsins.

Vísindamenn segja niðurstöðurnar afar ánægjulegar og enn eitt skrefið í spennandi þróun nýrra krabbameinslyfja.

Um er að ræða niðurstöður lyfjaprófana þar sem 157 sjúklingar með há-áhættu sortuæxli fengu ýmist bóluefni og ónæmislyfið pembrolizumab eða bara pembrolizumab. Áhættan hjá þeim sem fengu bæði dróst saman úr 50 prósent í 25 prósent.

Greint var frá því á ársfundi American Society of Clinical Oncology í Chicago að í prófununum hefðu 74,8 prósent þeirra sem fengu bóluefnið og pembrolizumab ekki greinst aftur eftir 2,5 ár en 55,6 prósent þeirra sem fengu aðeins pembrolizumab.

Krabbameinssérfræðingurinn Georgina Long segir að enn eigi eftir að sjá hvort niðurstöðurnar halda eftir fimm til tíu ár en flestir sem greinist aftur með sortuæxli geri það innan tveggja ára.

Samkvæmt Guardian greinast um 150 þúsund manns með sortuæxli árlega.

Önnur rannsókn sem kynnt var á ársfundi ASCO leiddi í ljós að notkun bóluefnis sem gefið var til að örva ónæmiskerfi sjúklinga með brjóstakrabbamein fyrir aðgerð jók lífslíkur þeirra töluvert.

Af þeim sem fengu bóluefnið var 81 prósent á lífi og laust við krabbamein eftir sjö ár, samanborið við 65 prósent sem fengu ekki bóluefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×