Enski boltinn

Maðurinn sem skallaði Roy Keane sak­felldur fyrir líkams­á­rás

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Roy Keane var við störf sem lýsandi hjá SkySports þegar maðurinn réðst á hann.
Roy Keane var við störf sem lýsandi hjá SkySports þegar maðurinn réðst á hann. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Scott Law, maðurinn sem skallaði Roy Keane á leik Arsenal og Manchester United hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás.

Hann verður látinn sinna 80 klukkustunda samfélagsþjónustu og hlýtur þriggja ára bann frá fótboltaleikjum í Bretlandi.

Atvikið átti sér stað í leik á Emirates þann 3. september 2023 í leik sem Arsenal vann 3-1. Mark var tekið af Alejandro Garnacho í leiknum fyrir mjög tæpa rangstöðu.

Roy Keane var á leið sinni niður úr lýsendaboxinu rétt áður en leiknum lauk. Hann segir manninn hafa ráðist á sig ástæðulaust og skallað vinstri hlið andlitsins og bringuna.

Micah Richards, samstarfsmaður Keane, reyndi að beisla manninn þar til hjálp bærist en hann flúði af vettvangi. Lögreglan handtók hann svo næsta dag.

Maðurinn, Scott Law, lýsti yfir sakleysi og segist hafa verið að fara á klósettið þegar hann varð fyrir áreiti af hálfu Keane, hann hafi brugðist við í sjálfsvarnarskyni. Á myndbandi hér fyrir neðan sést að Keane svaraði fyrir sig eftir skallann. 

Í dómsniðurstöðu málsins segir: „Eins höggs árás, sem hefði getað valdið mun meiri skaða en hún gerði. Heppni að brotaþolandi slapp með aðeins mar á bringu.“

Law var látinn greiða 650 punda málskostnað og 114 punda skaðabætur til Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×