Enski boltinn

Shaw skýtur á Ten Hag og læknateymi United: „Ég hefði aldrei átt að spila“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Shaw hefur verið meiddur undanfarna fjóra mánuði.
Luke Shaw hefur verið meiddur undanfarna fjóra mánuði. getty/Ash Donelon

Luke Shaw, leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, segir að hann hefði ekki átt að spila leikinn þar sem hann meiddist aftan í læri fyrir fjórum mánuðum. Vinstri bakvörðurinn er í kapphlaupi við tímann við að reyna að verða klár fyrir Evrópumótið í Þýskalandi.

Shaw hefur ekki spilað síðan hann meiddist í 1-2 sigri á Luton Town í ensku úrvalsdeildinni 18. febrúar. Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, bað hann um að spila þann leik. Meiðslin hjá Shaw tóku sig aftur upp í leiknum gegn Luton og hann hefur ekki spilað síðan þá. 

„Ég fann eitthvað í leiknum gegn Aston Villa og fór af velli í hálfleik,“ sagði Shaw en United mætti Villa í leiknum fyrir viðureignina gegn Luton.

„Allir eru sekir í þessu máli. Þetta er að hluta til mín sök, hluta til sök læknateymisins. Ég held að allir viðurkenni það. Ég æfði ekki alla vikuna. Það sást lítið í skoðuninni. En ég æfði ekki alla vikuna en æfði svo daginn fyrir leikinn. Ef stjórinn biður mig um að spila segi ég aldrei nei. En ég hefði aldrei átt að spila.“

Shaw byrjaði aðeins tólf leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. United endaði í 8. sæti hennar en vann bikarkeppnina.

Shaw er eini vinstri bakvörðurinn í enska landsliðinu sem tapaði sem kunnugt er fyrir því íslenska á föstudaginn. Fyrsti leikur Englands á EM er gegn Serbíu eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×