Erlent

Ó­hollar vörur drepa fjórðung Evrópu­búa

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Áfengi er á meðal þeirra þátta sem fjallað er um í skýrslunni.
Áfengi er á meðal þeirra þátta sem fjallað er um í skýrslunni. Vísir/Vilhelm

Tóbak, áfengi, unnar kjötvörur og jarðefnaeldsneyti drepa tvær komma sjö milljónir manna á hverju ári, aðeins í Evrópu.

Þetta er fullyrt í nýrri skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem hvetur stjórnvöld til þess að grípa til lagasetningar til að draga úr neyslu slíkra vara.

Í skýrslunni eru framleiðendur harðlega gagnrýndir fyrir að stuðla að ótímabærum dauðsföllum og slæmri lýðheilsu með því að beita misvísandi markaðsbrellum og þrýstingi á stjórnvöld að setja ekki hömlur á slíka neyslu. Þannig skaði fyrirtækin tilraunir til að draga úr sjúkdómum á borð við krabbamein, hjartasjúkdóma og sykursýki.

Skýrsluhöfundar halda því fram að í þeim fimmtíu og þremur löndum sem eru í Evrópu deyji 7400 einstaklingar á hverjum einasta degi af völdum tóbaks, áfengis, unninna kjötvara eða jarðefnaeldsneytis.

Það þýðir að næstum fjórðung allra dauðsfalla í álfunni mega rekja til þessara þátta.

„Of lengi hafa þessir helstu áhættuþættir aðallega verið tengdir við ákvarðanir einstaklinga. Við þurfum að endurskilgreina vandan sem kerfisbundin vanda, þar sem regluverk spornar gegn ofsafengnu neysluumhverfi,“ hefur The Guardian eftir Frank Vandenbrouck aðstoðarforsætisráðherra Belgíu vegna málsins.

Í skýrslunni eru stjórnvöld í Evrópu hvött til að koma á fót talsvert strangari reglugerð sem varðar markaðssetningu þessara vara og hvernig lobbýistar berjast fyrir þeim í stjórnsýslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×