Enski boltinn

Eru að reyna að kaupa kærustu­parið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Douglas Luiz og Alisha Lehmann gætu bæði verið á leiðinni til Juventus.
Douglas Luiz og Alisha Lehmann gætu bæði verið á leiðinni til Juventus. Getty/Rob Newell

Ítalska knattspyrnufélagið Juventus ætlar sér að slá tvær flugur með einu höggi með því að kaupa brasilíska knattspyrnumanninn Douglas Luiz frá enska úrvalsdeildarfélaginu Aston Villa.

Ítölsku blöðin Gazzetta dello Sport og Corriere della Sera segja bæði að Juventus nálgist samkomulag en um leið að kvennaliðið fagni einnig þessum fréttum.

Samkvæmt fréttunum frá Ítalíu þá mun Alisha Lehmann, kærasta Luiz, einnig koma til félagsins frá Aston Villa.

Erlendir fjölmiðlar skrifa um mögulega söguleg stund ef Juventus kaupir kærustuparið því þá yrði þetta líklegast í fyrsta sinn sem par semur í sameiningu við atvinnumannafélag í fótboltanum.

Lehmann er fædd árið 1999 og er svissneskur landsliðframherji. Hún hefur spilað með Aston Villa frá árinu 2021.

Douglas Luiz er ári eldri og spilar sem miðjumaður. Hann hefur leikið með Aston Villa frá árinu 2019 en samningur hans rennur út næsta sumar.

Lehmann er einnig stór samfélagsmiðlastjarna með næstum því ellefu milljón fylgjendur á TikTok og með meira en sextán milljónir fylgjendur á Instagram. Enginn Svisslendingur, ekki einu sinni Roger Federer, er með fleiri fylgjendur á samfélagsmiðlum.

Lehmann skoraði tvö mörk í fimmtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en hún hefur skorað 9 mörk 53 landsleikjum fyrir Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×