Bíó og sjónvarp

Donald Sutherland er látinn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ferill hans náði yfir hátt í sex áratugi.
Ferill hans náði yfir hátt í sex áratugi. AP/Arthur Mola

Kanadíski leikarinn Donald Sutherland, frægur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við The Dirty Dozen og MASH, er látinn eftir langa baráttu við veikindi. Hann var 88 ára gamall.

Miðillinn Variety greinir frá þessu. Ferill Donald Sutherland spannar hátt í sex áratugi og hreppti hann meðal annars Emmy-verðlaun og Golden Globe-verðlaun fyrir leik sinn. Hann er líklega þekktastur yngri kynslóðinni fyrir hlutverk sitt sem Snow forseti í kvikmyndunum um Hungurleikana.

Sutherland hlaut Emmy-verðlaun fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni Citizen X árið 1995 og var aftur tilnefndur fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni Human Trafficking árið 2006.

Kiefer Sutherland, leikari og sonur Donald Sutherland, greindi frá andláti hans í hjartnæmri færslu á samfélagsmiðlum.

„Hann elskaði það sem hann gerði og gerði það sem hann elskaði og það getur enginn beðið um meira en það. Líf sem vel var lifað,“ skrifar hann meðal annars um föður sinn.

Sutherland giftist þrisvar sinnum. Hann var giftur Lois Hardwick á árunum 1959 til 1966, Shirley Douglas frá 1966 til 1970 og Francine Racette giftist hann árið 1972.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×