Úkraína lenti undir en sótti sinn fyrsta sigur í seinni hálf­leik

Roman Yaremchuk reyndist hetja Úkraínu þegar hann setti sigurmarkið á 80. mínútu.
Roman Yaremchuk reyndist hetja Úkraínu þegar hann setti sigurmarkið á 80. mínútu. Lars Baron/Getty Images

Úkraína lenti undir á móti Slóvakíu en sótti 2-1 sigur í seinni hálfleik. Roman Yaremchuk setti sigurmarkið eftir glæsilega móttöku í teignum.

Slóvakía var við völd í upphafi og tók forystuna snemma á 17. mínútu. Snöggt innkast og sofandaháttur í úkraínsku vörninni skilaði sér í skallamarki hjá Ivani Schranz eftir flotta fyrirgjöf á fjærstöngina frá Lukasi Haraslin.

Úkraínumenn lifnuðu við eftir markið og áttu skot í stöng en tókst ekki að jafna áður en fyrri hálfleikur var allur. 

En snemma í seinni hálfleik skoraði Úkraínumaðurinn Mykola Shaparenko eftir fyrirgjöf frá Oleksandr Zinchenko.

Þegar líða tók á voru Úkraínumenn líklegri aðilinn til að taka forystuna og gerðu það loks á 80. mínútu.

Roman Yaremchuk tók þar listilega vel við fyrirgjöf frá Mykola Shaparenko og laumaði boltanum framhjá markmanni Slóvaka.

Slóvakía sótti hart undir lokin í leit að jöfnunarmarki en Úkraína hélt út og fagnaði sínum fyrstu þremur stigum á mótinu. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira