Enski boltinn

Kvenna­lið Man Utd fært svo pláss sé fyrir karla­liðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hin uppalda Ella Toone er ein af betri leikmönnum kvennaliðs Man United.
Hin uppalda Ella Toone er ein af betri leikmönnum kvennaliðs Man United. John Peters/Getty Images

Vegna breytinga á Carrington, æfingasvæði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, mun kvennalið félagsins þurfa að yfirgefa svæðið og hafast við í flytjanlegum búningsklefa þar sem karlaliðið mun nota kvennaklefann á meðan viðgerðirnar standa yfir.

Sir Jim Ratcliffe, minnihlutaeigandi í félaginu, var ekki lengi að komast að því að æfingasvæði félagsins er ekki á pari við bestu knattspyrnulið heims. Íhugað var að byggja nýtt æfingasvæði frá grunni en á endanum var ákveðið að ráðast í endurbætur á Carrington. 

Við það raskast hefðbundin starfsemi og nú hefur The Guardian greint frá að lausn Man United er að færa kvennaliðið úr byggingunni og gefa karlaliðinu klefann þeirra. Endurbæturnar munu kosta 50 milljónir punda eða nærri 9 milljörðum íslenskra króna og standa yfir allt 2024-25 tímabilið.

Sumarið 2023 var opnuð sérstök bygging á Carrington fyrir kvenna- og yngri lið félagsins sem kostaði samtals 10 milljónir punda, 1,8 milljarð íslenskra króna. Karlaliðið mun hafast við þar á meðan endurbæturnar standa yfir og kvennaliðið verður fært í svokallaða flytjanlega klefa. 

Var það lokaniðurstaða félagsins þar sem ekki var talið ákjósanlegt að færa kvennaliðið yfir á annað æfingasvæði þar sem æfingavellirnir væru ekki í sama gæðaflokki og liðið hefði þá ekki aðgang að mötuneyti líkt og það gerir á Carrington.

The Guardian hefur eftir aðila sem er nátengdur kvennaliðinu að þessi ákvörðun sé talin ýta undir þá tilfinningu að kvennaliðið sé ekki í forgangi hjá Man United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×