Enski boltinn

Shaq vill kaupa hlut í West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaquille O'Neal hefur fengið áhuga á enska boltanum.
Shaquille O'Neal hefur fengið áhuga á enska boltanum. getty/Julio Aguilar

Bandaríska körfuboltagoðið Shaquille O'Neal á í viðræðum um kaup á hlut í enska fótboltaliðinu West Ham United.

The Sun greinir frá. Í fréttinni segir að Shaq hafi heillast af West Ham eftir að hafa farið á leik með liðinu á síðasta tímabili og vilji nú eignast hlut í Hömrunum.

Shaq ku ætla að fjárfesta í liðinu sem ætti að gleðja stuðningsmenn þess en West Ham endaði í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Eftir það var Julen Lopetegui ráðinn knattspyrnustjóri liðsins í stað Davids Moyes.

West Ham er í eigu fjögurra stórra fjárfesta og Shaq gæti nú bæst í þann hóp. David Sullivan á 38,8 prósenta hlut í félaginu, Vanessa Gold, ekkja Davids Gold, á 25,1 prósenta hlut, tékkneski milljarðamæringurinn Daniel Kretinsky 27 prósent og bandaríski fjárfestirinn átta prósent.

Bandarískar stórstjörnur hafa fjárfest í enskum fótboltaliðum á undanförnum misserum. Leikararnir Ryan Reynolds og Rob McElhenney eiga hlut í Wrexham, leikarinn Will Farrell á hlut í Leeds United og ruðningskappinn fyrrverandi Tom Brady á hlut í Birmingham City.

Shaq varð fjórum sinnum meistari á glæsilegum ferli sínum í NBA. Eftir að skórnir fóru á hilluna hefur hann meðal annars starfað í sjónvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×