Erlent

Full­trúar Hamas og Fatah funda í Kína í næstu viku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Xi Jinping Kínaforseti og utanríkisráðherrann Wang Yi ræða saman. Stjórnvöld í Kína hafa löngum freistað þess að taka sér hlutverk sáttasemjara í ýmsum deilum.
Xi Jinping Kínaforseti og utanríkisráðherrann Wang Yi ræða saman. Stjórnvöld í Kína hafa löngum freistað þess að taka sér hlutverk sáttasemjara í ýmsum deilum. AP/Sergey Savostyanov

Fulltrúar Hamas og Fatah munu funda í Kína í næstu viku og freista þess að ná saman, sem margir segja forsendu þess að hægt verði að endurbyggja Gasa að átökum loknum.

Ismail Haniyeh, pólitískur leiðtogi Hamas, mun leiða sendinefnd samtakanna en Fatah mun senda þrjá fulltrúa, þeirra á meðal Mahmoud al-Aloul, varaformann flokksins.

Fundað verður í Pekíng.

Fulltrúar Hamas og Fatah hittust síðast í höfuðborginni í apríl síðastliðnum en fundir þeirra þá skiluðu ekki áþreifanlegum árangri. 

Kína hefur freistað þess að miðla málum milli fylkinganna, sem hafa barist um völd á Gasa og Vesturbakkanum. Samkvæmt talsmanni Fatah munu sendinefndirnar funda með Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, 21. og 23. júlí en einnig hittast þess á milli.

Bandaríkjamenn hafa sagt að Palestínska heimastjórnin, sem er undir stjórn Fatah, ætti að spila stóran þátt í endurreisn Gasa en þáttur Hamas er á reiki. 

Flestir eru sammála um að Ísraelsmönnum muni ekki takast að útrýma Hamas, eins og þeir hafa heitið, og að Hamas verði að eiga einhverja aðkomu að málum. Á sama tíma myndi aðkoma Hamas torvelda allar aðgerðir, þar sem mörg ríki hafa skilgreint samtökin sem hryðjuverkasamtök og bannað alla fjármögnun slíkra samtaka.

Leiðtogar Hamas hafa gefið til kynna að þeir séu reiðubúnir til að afsala sér yfirráðum á Gasa, það er að segja stjórnun svæðisins dag frá degi, en hafa þverneitað að leggja niður hernaðararm samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×