Bíó og sjónvarp

„Það er frá­bært bíóveður“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Barna- og unglingadaksráin á hátíðinni er veglegri en undanfarin ár.
Barna- og unglingadaksráin á hátíðinni er veglegri en undanfarin ár. Aðsend

Stofnandi heimildarmyndahátíðarinnar IceDocs sem fer fram um helgina segir ekkert annað að gera við veðurfarinu en að drífa sig á Akranes og ylja sér inn í Bíóhöllinni. Þetta er í sjötta sinn sem að hátíðin fer fram og dagskráin vegleg.

IceDocs hófst með pompi og prakt í gær á Akranesi en Ingibjörg Halldórsdóttir, ein stofnenda hátíðarinnar, segir viðburðin aldrei hafa verið stærri og að fjöldi erlendra listamanna sæki eftir því að fá mynd sína sýnda á ári hverju.

„Við sýnum sem sagt svona skapandi heimildamyndir sem er svona listform sem er ekkert rosalega þekkt en þetta eru heimildamyndir sem eru eins og bíómyndir þegar maður er að horfa á þær. Þannig þær geta verið spennumyndir og geta verið gamanmyndir og allt þar á milli.“

Skoðuðu 600 myndir

Þriggja manna teymi IceDocs fór yfir um 600 heimildarmyndir alls staðar að úr heiminum og völdu úr því fyrir hátíðina. Ingibjörg segir mikilvægt að velja þær myndir sem eru sem ferskastar og áhugaverðastar en einnig reyna þau að sérsníða dagskránna þannig að Íslendingar fái sem mest úr henni.

„Við erum orðin tiltölulega þekkt innan þessa heims, sem hátíð sem er gaman að heimsækja, þannig við fáum talsvert af erlendum gestum og í ár eru allar keppnismyndirnar okkar með gest með sem eru þá með spurt og svarað um sýningu.“

Ekki annað hægt en að drífa sig

Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin fer fram en að sögn Ingibjargar leggja þau sérstaka áherslu á barna- og unglingadagskrá í ár sem sé vegleg. Í gær hófst ókeypis námskeið í heimildamyndagerð fyrir börn á aldrinum átta til tólf ára en að því loknu eru heimildarmyndir barnanna frumsýndar í Bíóhöllinni.

„Í rauninni ljúkum við alltaf kvöldinu með léttum og skemmtilegum viðburðum, eins og í kvöld verður BarSvar með Níels Girerd og svo eru einhverjir ljúfir tónar og skemmtilegheit.“

Ingibjörg segist fagna veðrinu sem henti vel fyrir heimildarmyndahátíð.

„Það er frábært bíóveður við skulum bara kalla þetta bíóveður er það ekki? Það er ekkert annað hægt en að drífa sig á Skagann og koma í bíó.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.