Búið er að kyrrsetja allar vélar á flugvellinum í Sydney, Edinborg og víða í Bandaríkjunum.
Bein útsending Sky News hefur verið rofin og lestar í Bretlandi sitja fastar. Þá liggur bókunarkerfi bresku heilbrigðisþjónustunnar (NHS) niðri.
BBC greinir frá því að netöryggisyfirvöld í Ástralíu segi ekki um árás að ræða heldur virðist vandamálið tengjast hugbúnaði frá Microsoft.
Flugfélög í Bandaríkjunum, þeirra á meðal United, Delta og American Airlines, hafa kyrrsett allar sínar vélar um allan heim. Flugvélar sem eru þegar í loftinu halda áfram á áfangastað en engar vélar fara í loftið í bili.
We're investigating an issue impacting users ability to access various Microsoft 365 apps and services. More info posted in the admin center under MO821132 and on https://t.co/W5Y8dAkjMk
— Microsoft 365 Status (@MSFT365Status) July 18, 2024
Samkvæmt frétt BBC hurfu allar upplýsingar af komu- og brottfaratöflum í flugstöðinni í Sydney. Flugfélagið Jetstar sagði í tilkynningu til farþega að vegna atviks sem tengdist Microsoft væri ekki hægt að innrita farþega né leyfa þeim að ganga um borð.
Á samfélagsmiðlum hafa fregnir borist af löngum biðröðum í verslunum, vegna vandamála við að koma greiðslum í gegn. Þá virðast vandamál vera uppi hjá National Australia Bank, fjarskiptafyrirtækinu Telstra, Google og fleirum, ef marka má vefsíðuna Downdetector.