Erlent

Við­vörun gefin út í Kerala á Ind­landi vegna Nipah-veirunnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þessi mynd var tekin fyrir utan sjúkrahús í Kochi í Kerala árið 2019, þegar námsmaður greindist með veiruna.
Þessi mynd var tekin fyrir utan sjúkrahús í Kochi í Kerala árið 2019, þegar námsmaður greindist með veiruna. epa/Prakash Elamakkara

Heilbrigðisyfirvöld í Kerala á Indlandi hafa gefið út viðvörun eftir að 14 ára drengur lést af völdum Nipah-veirunnar. Um það bil 60 eru sagðir hafa orðið útsettir fyrir smiti.

Að sögn Veen George, heilbrigðisráðherra Kerala, bjó drengurinn í bænum Pandikkad. Þeir sem komust í návígi við drenginn, sem lést skömmu eftir að hann greindist, eru í einangrun.

Fólk á svæðinu hefur verið beðið um að grípa til varúðarráðstafana; bera grímur á almannafæri og forðast heimsóknir á sjúkrahús.

Nipah-veiran berst aðallega í menn frá leðurblökum og svínum en smit getur einnig borist manna á milli og úr menguðum matvælum. Veiran er á gátlista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vegna getu hans til að valda faraldri.

Tugir eru taldir hafa látist í Kerala af völdum veirunnar frá því að hún greindist þar fyrst árið 2018. Ríkið þykir sérstaklega útsett fyrir útbreiðslu hennar, vegna skógareyðingar og útbreiðslu þéttbýlis.

Þessir þættir valdi aukinni nálægð milli manna og dýra, sem auðveldar útbreiðslu veirunnar.

Yfirvöld í Kerala tilkynntu nýlega að unnið væri að áætlun til að koma í veg fyrir faraldur en í fyrra var skólum og vinnustöðum lokað í kjölfar fimm dauðsfalla af völdum veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×