Enski boltinn

Aldrei eins margar á­bendingar um mis­munun á einu tíma­bili

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kick It Out samtökin eru áhorfendum ensku úrvalsdeildarinnar góðkunnug.
Kick It Out samtökin eru áhorfendum ensku úrvalsdeildarinnar góðkunnug. Catherine Ivill/Getty Images

Kick It Out, bresk samtök gegn mismunun í knattspyrnu, greina frá því að aldrei hafi eins margar ábendingar borist á einu tímabili. Samtökin birtu skýrslu um tímabilið 2023–24 í gær. Þar kemur fram að alls hafi borist 1332 ábendingar um mismunun, sem er 32 prósent hækkun frá tímabilinu áður og tvöföldun ef miðað er við tímabilið 2021–22.

Rasismi er enn algengasta sökin, en ábendingum rasisma fjölgaði um 47 prósent milli ára. Mismunun byggð á trú er næst algengust, ábendingum um það fjölgaði um 34 prósent milli ára en mikla aukningu mátti greina á gyðingaandúð.

„Þessar tölur gefa gaum að stóru vandamáli sem umlykur fótboltann. Það er mikið áhyggjuefni að sjá þessar tölur hækka svo hratt milli ára. Við trúum því hins vegar, að þær hækki líka vegna þess að aðdáendur eru orðnir meðvitaðri um og umbera slíka mismunun ekki eins og áður,“ sagði Sanjay Bhandari, framkvæmdastjóri Kick It Out.

Skýrslan leiddi einnig í ljós að aukning hafi orðið á ljótum ummælum í grasrótinni. Í flokki undir 18 ára fjölgaði ábendingum um 35 prósent en í flokki 12 ára og yngri fjórfölduðust þær.

Svo virðist sem hinsegin hatur, hómófóbía, sé það eina á undanhaldi. Ábendingum í þeim flokki fækkaði um 24 prósent milli ára, en fjölgaði reyndar töluvert ef einungis er litið til ummæla sem höfð voru á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×