Enski boltinn

Fulham kaupir Smith Rowe og skilur Liverpool eitt eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, nýr knattspyrnustjóri Liverpool, sést hér stýra Liverpool á móti Real Betis á dögunum.
Arne Slot, nýr knattspyrnustjóri Liverpool, sést hér stýra Liverpool á móti Real Betis á dögunum. Getty/ Justin Berl

Liverpool er eina félagið í fimm bestu deildum Evrópu sem hefur ekki keypt leikmann fyrir komandi tímabil.

Fulham og Liverpool voru þau einu sem höfðu ekki verslað leikmann en í gær samþykkti Arsenal að selja Emile Smith Rowe til Fulham fyrir 34 milljónir punda.

Þar með stendur Liverpool eitt eftir af liðunum í ensku úrvalsdeildinni, þýsku bundesligunni, ítölsku Seríu A deildinni, spænsku La Liga deildinni og portúgölsku deildinni sem hefur ekki fjárfest í nýjum leikmanni. Þetta eru í dag fimm bestu deildir Evrópu samkvæmt styrkleikaröðun UEFA.

Það sem gerir þetta enn athyglisverðara er að Hollendingurinn Arne Slot var að taka við af Jürgen Klopp sem knattspyrnustjóri Liverpool. Það að nýr stjóri fái ekki að kaupa einn einasta leikmann verður að teljast afar sérstakt.

Fullt af leikmönnum hafa reyndar verið orðaðir við Liverpool og það eru sögusagnir í gangi um að eitthvað sé í gangi á bak við tjöldin.

Slot á að hafa talað um það að það væru tveir leikmenn á leiðinni en það var langt síðan og ekkert hefur gerst í þeim málum.

Liverpool er langt komið með undirbúningstímabilið og það styttist í fyrsta leik á nýju tímabili í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×