Erlent

Þolin­mæði Fær­eyinga gagn­vart Norður­landa­ráði á þrotum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Aksel V. Johannesen ávarpaði þingheim við þingsetningu.
Aksel V. Johannesen ávarpaði þingheim við þingsetningu. Løgmansskrivstovan

Aksel V. Johannesen lögmaður Færeyja flutti ávarp sitt við þingsetningu á Ólafsvöku í Þórshöfn í gær og ítrekaði að Færeyjar ættu að fá fulla aðild að Norðurlandaráði.

Utanríkismál voru meðal umfjöllunarefna hans í ræðunni. Hann sagði tíma til kominn að Færeyjar tækju virkari þátt í að gæta sinna hagsmuna á alþjóðavettvangi.

„Þó að samstarfið við dönsk stjórnvöld sé gott er einhugur á þinginu um að við eigum að auka umsvif okkar á alþjóðavísum,“ sagði hann.

„Og nú er þolinmæði okkar gagnvart Norðurlandaráði á þrotum. Í hálfa öld höfum við reynt að fá fulla aðild - án árangurs,“ sagði hann þá.

Hann krafðist þess að deilur um samband Færeyja og Danmerkur yrðu lagðar til hliðar og að flokkarnir kæmu sér saman um samstöðu í utanríkismálum.

„Stundum er svo fáránlega sagt að Færeyjar séu bara eins og smábær. En ef við hugsum um hve mikið við sköpum, hve vel við höfum skipulagt okkur, hve langt við erum komin og allt sem við höfum gert, þá er það rangt,“ sagði Aksel.

„Því, hvaða bær hefur sinfóníu, rithöfunda, tónlistafólk og leiklistafólk? Hvaða bær hefur svo margt íþróttafólk í fremstu röð? Á EM, HM og nú tvo á Ólympíuleikunum? Í hvaða bæ kemur fólkið saman til að syngja eigin lög á eigin máli á þjóðhátíðardaginn?“ sagði Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður og formaður Norðurlandaráðs, ræddi um Ólafsvöku og óánægju Færeyinga í Bítinu á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×