Enski boltinn

Nýi 52 milljóna punda leik­maður Man. Utd á hækjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leny Yoro í fyrsta leik sínum með Manchester United en sá leikur endaði ekki vel.
Leny Yoro í fyrsta leik sínum með Manchester United en sá leikur endaði ekki vel. Getty/Joe Prior

Ferill Leny Yoro með Manchester United byrjaði ekki vel því hann meiddist strax í fyrsta leik. Nú lítur út fyrir að meiðslin gætu verið alvarleg.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að Yoro hafi sést á hækjum á æfingasvæði United en liðið er statt í æfingaferð í Bandaríkjunum.

United borgaði franska liðinu Lille 52 milljónir punda fyrir þennan átján ára miðvörð 18. júlí síðastliðinn. Hann þykir vera einn allra efnilegasti varnarmaður heims og er ætlað stórt hlutverk í liðinu á fyrsta tímabilinu þrátt fyrir ungan aldur.

52 milljónir punda eru 9,2 milljarðar í íslenskum krónum og því engin smá upphæð.

Yoro gat hins vegar ekki sett neinn þunga á fótinn þegar hann fór af velli í fyrsta leik sínum á móti Arsenal. Heimildir BBC úr herbúðum United herma að félagið sé enn að átta sig á alvarleika meiðslanna.

Knattspyrnustjórinn Erik ten Hag hefur ekki talað við fjölmiðla síðan Yoro meiddist og mun ekki gera það fyrr en annað kvöld á blaðamannafundi fyrir æfingarleik á móti Liverpool.

United mætir samt Real Betis í San Diego í kvöld í öðrum æfingarleik ferðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×