Enski boltinn

Man. Utd. kaupir danska undrabarnið sem skoraði tíu mörk gegn Liverpool

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Chido Obi-Martin þykir mikið efni.
Chido Obi-Martin þykir mikið efni. David Price/Arsenal FC via Getty Images

Sextán ára gamall Dani að nafni Chido Obi-Martin er við það að ganga til liðs við Manchester United frá Arsenal, þar sem hann hefur verið undanfarin tvö ár og raðað inn mörkum með unglingaliðinu.

Það er félagaskiptamógullinn Fabrizio Romano sem greinir frá og segir jafnframt að Obi-Martin hafi hafnað hærri samningsboðum frá liðum í Þýskalandi og kosið frekar að fara til Manchester.

Obi-Martin er danskur og hefur spilað með unglingalandsliðum Danmerkur. Hann er uppalinn í KB þar í landi en fluttist til Arsenal árið 2022.

Obi-Martin hefur fengið tækifæri til að æfa með aðalliði Arsenal.

Á nýliðnu tímabili spilaði hann með u18 liðinu og skoraði 29 mörk í 17 leikjum. Þar af tíu mörk í einum leik gegn Liverpool, sjö mörk gegn Norwich, fimm mörk gegn West Ham og fjögur mörk gegn Crystal Palace.

Hann hefur einnig fengið tækifæri til að æfa með aðalliði Arsenal. Þar sem hann er enn mjög ungur, á sautjánda ári, má vænta þess að hann spili með unglingaliði Manchester United á næsta tímabili meðan hann æfir með og undirbýr stökkið upp í aðalliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×