Enski boltinn

Manchester City gengst við brotum

Aron Guðmundsson skrifar
Pep Guardiola er knattspyrnustjóri Manchester City sem er ríkjandi Englandsmeistari. 
Pep Guardiola er knattspyrnustjóri Manchester City sem er ríkjandi Englandsmeistari.  Vísir/Getty

Enska úr­vals­deildar­fé­lagið Manchester City gegnst við því að hafa ítrekað brotið reglu L.33 í reglu­verki ensku úr­vals­deildarinnar. Reglan snýr að upp­hafs­tíma leikja sem og á­fram­haldi þeirra eftir hálf­leiks­hlé. Fé­lagið mun greiða sekt sem nemur rúmum tveimur milljónum punda.

Það jafngildir rétt tæpum 357 milljónum íslenskra króna en brotin teygja sig aftur til tímabilsins 2022/2023 og fram til loka síðasta tímabils og eru alls fjórtán talsins. 

Manchester City gegnst við brotunum og mun greiða sekt per leik frá sjöunda broti til þess fjórtánda og nemur sú sekt í heildina þessum rétt rúmum tveimur milljónum punda. 

Í greinargerð um málið segir að forráðamenn Manchester City hafi beðist afsökunar á þessum brotum sínum, sem eru þess eðlis að of oft hafa leikir liðsins á heimavelli ekki hafist á réttum tíma sem og ekki farið af stað á settum tíma eftir hálfleikshlé. 

Félagið hefur ítrekað það við sína leikmenn sem og aðra stjórnendur liðsins að virða regluverkið og ábyrgðarhlutverk þeirra í þeim efnum. 

Til rannsóknar í stærra og víðfemara máli

Er þetta ekki í fyrsta sinn sem enska úrvalsdeildin hefur  Manchester City til skoðunar vegna meintra brota. Eins og frægt er orðið hefur félagið verið ákært í 115 liðum fyrir brot á fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar. Stærra og mun víðfemara mál en það sem varðar tímasetningar og töf á upphafstíma leikja.

Óvíst er á þessari stundu hvenær málið verður tekið fyrir af dómstólum en vonir eru bundnar við að dómur verði kveðinn um miðbik eða á seinni hluta næsta árs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×