Enski boltinn

Craig Shakespeare látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Craig Shakespeare, 1963-2024.
Craig Shakespeare, 1963-2024. getty/Plumb Images

Fyrrverandi knattspyrnustjóri Leicester City, Craig Shakespeare, er látinn, sextugur að aldri.

Shakespeare var aðstoðarmaður Claudios Ranieri hjá Leicester sem varð Englandsmeistari 2016. 

Eftir að Ranieri var sagt upp hjá Leicester í febrúar 2017 tók Shakespeare við liðinu. Hann stýrði Refunum út tímabilið og skrifaði svo undir þriggja ára samning við félagið um sumarið. Shakespeare var hins vegar rekinn í október eftir slakt gengi í upphafi tímabilsins 2017-18.

Shakespeare stýrði Leicester í 26 leikjum; ellefu unnust, níu töpuðust og sex enduðu með jafntefli.

Auk þess að vera hjá Leicester City starfaði Shakespeare einnig hjá West Brom, Hull City, Everton, Watford, Aston Villa og Norwich City. Þá var hann aðstoðarmaður Sams Allardyce á þeim stutta tíma sem hann stýrði enska landsliðinu. 

Shakespeare sneri aftur til Leicester vorið 2023, þá sem aðstoðarmaður Deans Smith. Sama ár var greint frá því að Shakespeare hefði greinst með krabbamein. Hann lést á heimili sínu í morgun.

Á leikmannaferlinum lék Shakespeare með Wallsall, Sheffield Wednesday, West Brom, Grimsby Town, Scunthorpe United, Telford United og Hednesford United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×