Enski boltinn

Fjögur norsk mörk í sigri Man. City á Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar einu marka sinna fyrir Manchester City í kvöld en Norðmaðurinn var með fyrirliðaband City í leiknum.
Erling Haaland fagnar einu marka sinna fyrir Manchester City í kvöld en Norðmaðurinn var með fyrirliðaband City í leiknum. Getty/Jason Mowry

Manchester City vann 4-2 sigur á Chelsea í æfingarleik liðanna í kvöld en leikurinn fór fram í Columbus í Ohio fylki í Bandaríkjunum.

Þetta var fyrsti sigur Englandsmeistarar City á undirbúningstímabilinu og það í fjórða leiknum. Liðið hafði tapað á móti Celtic og AC Milan auk þess að tapa í vítakeppni eftir jafntefli á móti Barcelona.

Norðmaðurinn Erling Haaland var með fyrirliðabandið í kvöld og hélt upp á það með þrennu. Landi hans Oscar Bobb var líka á skotskónum.

Haaland skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á þriðju mínútu og bætti við öðru marki á fimmtu mínútu. Bobb skoraði sitt mark á 55. mínútu og mínútu síðar innsiglaði Haaland þrennuna. Hinn 21 árs gamli James McAtee lagði upp tvö síðustu mörkin.

Raheem Sterling kom inn á sem varamaður og minnkaði muninn á 59. mínútu en hann var spila á móti sínum gömlu félögum.

Síðasta markið í leiknum skoraði síðan Noni Madueke fyrir Chelsea undir lok leiksins og lokatölur urðu því 4-2 fyrir City.

Chelsea hefur aðeins unnið einn af fjórum leikjum sínum á undirbúningstímabilinu en það var 3-0 sigur á América frá Mexíkó. Liðið gerði jafntefli við Wrexham og tapaði á móti Celtic.

Chelsea klárar Bandaríkjaferðina með leik á móti Real Madrid 6. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×