María Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, fór í felur skömmu eftir að hún sakaði Maduro forseta um að hafa rangt við í kosningunum sem fóru fram á sunnudag. Edmundo González, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, hafi í raun unnið sigur.
Maduro svaraði með því að hóta Machado og þeim sem taka þátt í mótmælum gegn stjórn hans og kosningaúrslitunum hörðum refsingum og handtöku. Yfirkjörstjórn landsins, sem er skipuð bandamönnum forsetans, segir hann hafa hlotið meira en helming atkvæða til forseta en hefur þráast við að birta ítarleg gögn um úrslitin. Alþjóðlegir eftirlitsmenn segja að gagnsæi hafi skort í framkvæmd kosninganna.
Boðaði frekari handtökur en jafnframt einingu og frið
Machado, sem var bannað að bjóða sig fram í kosningunum, ávarpaði þúsundir manna sem komu saman í höfuðborginni í gær. Hún sagðist óttast um líf sitt og limi þegar hún fór í felur á þriðjudag.
„Við höfum aldrei verið jafnsterk og nú,“ sagði Machado sem fullyrti að stjórn Maduro hefði aldrei staðið veikar. Hún væri rúin öllu lögmæti, að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir henni.
Að ávarpinu loknu var Machado hraðað burt á bifhjóli.

Öryggissveitir stjórnar Maduro hafa handtekið hundruð stjórnarandstæðinga í mótmælum eftir kosningarnar. Grímuklæddir menn brutust inn í höfuðstöðvar stjórnarandstöðunnar, tóku þaðan skjöl og unnu skemmdarverk á föstudag, að sögn AP-fréttastofunnar.
Síðdegis í gær komu þúsundir stuðningsmanna Maduro saman við skrifstofu forsetans. Maduro ítrekaði hótanir sínar um að handtaka og fangelsa fleiri stjórnarandstæðinga þegar hann ávarpaði mannfjöldann, þar á meðal González. Á sama tíma hvatti hann til friðar og sátta.
„Það er pláss fyrir alla í Venesúela,“ sagði forsetinn.
Segja González hafa fengið mun fleiri atkvæði en Maduro
Enn er deilt um úrslit kosninganna fyrir viku. Stjórnarandstaðan birti fyrir helgi talningarblöð sem hún sagði fengin úr 79 prósent kosningavéla sem voru notaðar í kosningunum. Greining AP-fréttastofunnar á þeim, með fyrirvara um að þau séu ósvikin, bendir til þess að opinberar tölur kjörstjórnar séu vafasamar.
Samkvæmt greiningunni hlaut González, sem er enn í felum, nærri hálfri milljón atkvæða fleiri en yfirvöld segja að Maduro hafi fengið. Tölur stjórnarandstöðunnar benda til þess að Maduro hafi fengið ríflega þremur milljónum atkvæði færri en þau sem kjörstjórn segir hann hafa fengið þegar 96 prósent atkvæða höfðu verið talin.
Kjörstjórn hefur borið fyrir sig tölvuárás á kerfi sín á meðan fjöldi ríkja hefur kallað eftir því að stjórnvöld í Caracas geri úrslit úr hverju kjördæmi fyrir sig opinberar líkt og gert hefur verið eftir fyrri kosningar. Á meðal þeirra eru bandalagsríki Maduro.
Bandaríkjastjórn hefur sagt að yfirgnæfandi vísbendingar séu um að stjórnarandstaðan hafi farið með sigur af hólmi í kosningunum. Á móti nýtur Maduro stuðnings alræðisríkjanna Rússlands, Kína og Kúbu.